18.2.2009 | 15:27
ESB-þráhyggja Samfylkingarinnar
"Á það að vera stefna Samfylkingarinnar að Íslendingar skilgreini samningsmarkmið sín, fari fram á viðræður um aðild að Evrópusambandinu og að hugsanlegur samningur verði síðan lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar?"
Um 80% þeirra sem atkvæði greiddu í póstkosningu sögðu já en um 20% nei. Síðan hefur flokkurinn verið í vandræðum með þessa samþykkt því að alla götu síðan hefur Samfylkingin gleymt því að skilgreina hver hún telji að samningsmarkmið Íslendinga eigi að vera. Aðeins er þrástagast á því að sækja eigi um aðild að ESB.
Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur frá stofnun flokksins fyrir 10 árum margítrekað í samþykktum andstöðu sína við að Ísland leiti eftir aðild að Evrópusambandinu. Þannig hefur Jón Bjarnason skýra afstöðu flokksins til að vísa í um málið. Engin samþykkt hefur verið gerð af VG sem breyti þeirri afstöðu. Aðildarumsókn verður ekki lögð inn af Íslands hálfu nema skýr meirihluti sé fyrir slíku á Alþingi og hann hefur ekki birst þjóðinni enn sem komið er.
Annars berast hingað öðru hvoru yfirlýsingar frá ESB um að slík umsókn væri sambandinu kærkomin. Síðast var það Bilyana Ilieva Raeva frá Búlgaríu, þingmaður á Evrópuþinginu og formaður tengslanefndar þingsins við EES, þar á meðal Ísland og Noreg, sem lýsti þeirri skoðun sinni nýverið í grein á fréttavef Evrópuþingsins að Íslendingar gætu sem aðilar að sambandinu orðið mikilvægir hernaðarlegir bandamenn þess (could provide a strategic partner for the EU). Ákveðinn þyrnir á leið Íslands til aðildar að ESB gætu að vísu orðið sjávarútvegsmál, en skoða mætti að landið stæði að hluta eða að fullu utan sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar, AÐ MINNSTA KOSTI UM STUNDARSAKIR. Ekki voru það ný tíðindi.
Þá hafði Morgunblaðið (13. febrúar sl.) það eftir Lulzim Basha, utanríkisráðherra Albaníu undir fyrirsögn um þvera síðu: " Albanskur almenningur myndi fagna aðildarumsókn Íslands." Ekki ónýtt fyrir Samfylkinguna og Framsókn að fá slíkan stuðning sunnan af Balkanskaga. "Ég held að aðildarumsókn Íslands væri frábærar fréttir fyrir albanskan almenning og fyrir suðausturhluta Evrópu, sem nú horfa til aðildar að sambandinu." - Engum sögum fór af því hversu vel umræddur almenningur þekki til Íslands og íslenskra málefna, en það er altént huggun fyrir Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn að fá svo ljúfar undirtektir við aðildarhugmyndir sínar úr þessu horni álfunnar.
Evrópustefna VG skýr | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Í Kosningastefnu Samfylkingarinnar 2007 er talað um að leita skal víðtæks samráðs til mótunar á samningsmarkmiðum Ísland til aðildaviðræðna. Semsagt Samfylkingin ætlar ekki að ákveða með miðstýringu hvernig aðildarviðræðum skal háttað. Mér þykir leitt að þú skulir tala með þessum hætti til Búlgara og Albana sem sitja enn í rústum lands síns löngu eftir að fyrrverandi flokksbróðir þinn Enver Hoxa setti landið gjörsamlega í rúst eftir kennisetningum stóra bróðurs ykkar í gamla Sovét. þú vonandi fyrirgefur mér Hjörleifur þó ég taki ekki mikið mark á þínum skoðunum né tillögum.
p.s. Ég biðst forláts ef ég hef ekki stafað nafn einræðisherrans frá Albaníu rétt.
Tjörvi Dýrfjörð, 18.2.2009 kl. 16:24
Sæll Tjörvi. Væri ekki rétt að Samfylkingin svari fyrir sig hver hún telur að "samningsmarkmið Íslands" ættu að vera í aðildarviðræðum? Þeir sem andvígir eru aðild hafa varla áhuga á að leggja í það púkk.
Hjörleifur Guttormsson, 18.2.2009 kl. 17:19
Heill og sæll
Finnst djarft teflt að kalla vilja á þessu sviði þráhyggju. Það hlítur að vera nær sanni að þjóðremban og að skilgreina okkur frá allri samvinnu innan Evrópu sé einstrengingsháttur.
Frændur okkar Olli Rehn, Uffe Elleman Jensen og Göran Persson hafa lýst yfir áhuga á að fá Ísland inn í þennan samstarfsvettvang. Vil ekki að neinn hafi forsendur til að taka þessa ákvörðun af þjóðinni.
Aðildarviðræður og þjóðaratkvæði um samninginn er eina lýðræðislega ferlið.
Með góðri kveðju,
G
Gunnlaugur B Ólafsson, 18.2.2009 kl. 17:24
Að það sé talin höfuðlaus á vanda Íslands að ganga í ESB er fátækleg hugsun og grunn.
Vandamál Íslands eru margvísleg, en vandamál sjálfs ESB og EURO-myntbandalagsins eru svo margþætt að flesta Íslendinga skortir ímyndunarafl til að fá svo sem skjámynd af brotabroti heildar. Vandamálin á meginlandi Evrópu eru af gömlum toga og tilraunir til úrlausna enn eldri. Fjölþjóðaríki eru til þess fallin að verða sjálfum sér sundurþykk og þannig gliðna í sundur, með tilheyrandi braki og brestum sem við þekkjum best úr mannkynssögunni.
Reynt er að steypa í sama forn ólíkum þjóðarbrotum, fólki sem hefur mjög ólíka lífssýn, gildismat og sömuleiðis ólíkar forsendur fyrir daglegum lífsrytma. Væri ekki nær að mynda bandalag um svipaða hagsmuni, líka lífssýn og gildismat með hinum norrænu þjóðum en að steypa Íslandi í ógreinilegt og gruggugt samsull Evrópuríkja?
Baldur Gautur Baldursson, 18.2.2009 kl. 18:26
Dómsdagsspádóminn um Ísland á forsíðu heimasíðu Útvarps sögu má auðveldlega lesa sem viðvörun um að kjósum við ekki Samfylkinguna eða í 2. lagi Vg þá taki Sjálfsstæðisflokkur og Framsókn við eftir kosningar við lítinn fögnuð þjóðarinnar. Þeir byrji svo að klúðra öllu og klúðrið muni síðan vinda upp á sig og éta þjóðina smám saman inn að beini og upp til agna. Eins má lesa spádóminn þannig að verði ekki sótt srax um aðild að ESB þá fari allt á versta veg. Þá getum við ekki sýnt sömu hörku í IceSave samningum. Samfylkingin og Vg verða því að sigra kosningarnar saman og sækja í framhaldinu um aðild að ESB.
Árni B. Steinarsson Norðfjörð, 19.2.2009 kl. 09:18
http://www.youtube.com/watch?v=FbBw8pGRneQ
http://www.youtube.com/watch?v=ODulryvhHPA&feature=related
http://www.youtube.com/watch?v=fzbeDvMi71Q&feature=related
.....uber alles!
Óðinn af Eyrarbakka, 19.2.2009 kl. 15:34
Þakka athugasemdir ykkar. Jóni Frímanni ráðlegg ég að fletta upp í orðabókum, t.d. þeirri stóru frá Erni og Örlygi 1984. Einnig Morgunblaðið þýðir ummæli Raeva formanns Evrópuþingsnefndarinnar í þessa veru: "Segir formaðurinn m.a. að Íslendingar geti orðið hernaðarlega mikilvægir bandamenn Evrópusambandsins."
Hjörleifur Guttormsson, 19.2.2009 kl. 20:55
"could provide a strategic partner for the EU" hefur sem setning enga skírskotun í hernað Hr. HG.
kv Sveinn
Sveinn Valdimar Ólafsson, 21.2.2009 kl. 00:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.