Samfylkingin 2009 minnir á Alþýðuflokkinn 1979

Ríkisstjórnin er heillum horfin og hefur verið það allt frá bankahruninu og kannski frá byrjun. Það hefur vantað mikið á það að forsætisráðherrann hefði það jarðsamband sem nauðsynlegt er fyrir mann í hans stöðu. Bæði fyrir og eftir hrun hefur hann verið í afneitun og lokað augum fyrir stöðu mála.

Ástandið innan Samfylkingarinnar er ekki síður alvarlegt og hægt að taka undir með stjórnmálafræðingum í Kastljósi í kvöld að flokkurinn sé í skelfilegu ástandi og forystan út og suður. Um margt minnir þetta á stöðuna í ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar fyrir 30 árum þegar Alþýðuflokkurinn rauf stjórnarsamstarf fyrirvaralaust á sama tíma og formaður flokksins Benedikt Gröndal var erlendis. Aðdragandinn voru langvinnar og hatrammar deilur í þingsflokki Alþýðuflokksins eftir mikinn uppgang í kosningum árið áður.

Nú er það hins grasrótin í Samfylkingunni sem ríður á vaðið og heimtar stjórnarslit á sama tíma og formaðurinn er á sjúkrabeði erlendis. Margir þingmenn hafa tekið undir þessa kröfu í fjölmiðlum án þess að formleg niðurstaða þingflokksins liggi fyrir. Virðist sem dokað sé við eftir að Ingibjörg Sólrún komi erlendis frá en jafnframt er boðað að hún leggist inn á sjúkrahús við heimkomuna. Undarlegt verður að teljast að Ingibjörg skuli ekki taka sér formlega frí frá stjórmálunum á meðan hún er að glíma við sinn sjúkdóm og ná bata. Sennilega endurspeglar þetta djúpstæða forystukreppa í Samfylkingunni.

Þjóðin þarf síst á því að halda að búa við óstarfhæfa ríkisstjórn nú langtímum saman. Í þessari stöðu er eina ráðið að rjúfa þing hið fyrsta og boða til kosninga sem gætu verið afstaðnar eftir 2-3 mánuði. Að því búnu tæki við stjórn með ferskt umboð til að glíma við þau hrikalegu vandamál sem síst af öllu verða leyst af flokkum sem hrjáðir eru af innanflokksátökum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband