Hvers megnugur verður Barack Obama?

 Kosning Baracks Obama sem 44. forseta Bandaríkja Norður-Ameríku er söguleg og hefur vakið vonir,ekki aðeins heima fyrir heldur um víða veröld. Enginn spáði því þegar kosið var í Bandaríkjunum fyrir fjórum árum að næsti forseti gæti orðið blökkumaður og einstaklingur sem boðaði róttækt fráhvarf frá stefnu Bush-stjórnarinnar á mörgum sviðum og hrifi með sér meirihluta kjósenda. Einstaklingurinn sem vann þetta afrek var þá óþekktur nema sem nýliði á Bandaríkjaþingi, kjörinn í öldungadeildina fyrir Illinois-fylki haustið 2004 en áður fulltrúi á fylkisþingi í tvö kjörtímabil. Við embættistöku er hann  aðeins 47 ára, fæddur 4. ágúst 1961 á Hawai, sama ár og John F. Kennedy varð forseti  46 ára að aldri. Obama er nú oft líkt við Kennedy hvað ræðumennsku og útgeislun varðar og væntingarnar til hans um forystu eru engu minni en til þess síðarnefnda. Valdataka á erfiðum tímumLoforð um breytingar var helsta kjörorð Obama í langri og harðsóttri kosningabaráttu. Ákallið vísar til fráhvarfs frá einkar óvinsælli stefnu Georges W. Bush jafnt innanlands sem í utanríkismálum. Innanlands vofir yfir dýpsta kreppa í efnahagsmálum sem Bandaríkjamenn hafa upplifað síðan um 1930 og erlendis eru Bandaríkin föst í styrjaldarátökum í Írak og Afganistan sem kostað hafa mörg mannslíf og óhemju fjármuni. Obama hefur lofað að draga bandaríska herinn burt frá Írak en hins vegar lagði hann í kosningabaráttu sinni áherslu á aukinn hernað í Afganistan. Hvoru tveggja ásamt suðupottinum fyrir botni Miðjarðarhafs getur reynst þrautin þyngri. Hins vegar hefur Obama boðað beinar viðræður við Sýrland og Íran um deilumál og að leitað verði eftir samningum við Rússa um niðurskurð í kjarnorkuvopnabúrum ríkjanna. Inn í það mál fléttast eflaust nýlegir samningar Bush forseta við pólsk og tékknesk stjórnvöld um eldflaugastöðvar. USA og loftslagsbreytingarnarEins og oftast áður bar efnahagsmál hæst í kosningabáttunni vestra og kreppublikan herti til muna á þeirri áherslu. Umhverfismál og loftslagsbreytingar voru ekki áberandi deilumál milli frambjóðendanna þriggja eða ofarlega í umræðum. Hins vegar boðuðu allir forsetaframbjóðendurnir þrír að snúið skyldi frá afneitun Bush-stjórnarinnar á  loftslagsbreytingum af mannavöldum. Sem þingmaður hefur McCain verið meðflutningsmaður tillögu í öldungadeildinni um að ná niður losun gróðurhúsalofttegunda um 60% árið 2050 og Obama studdi þá tillögu. Sjálfur hefur Obama verið á tillögu í þinginu sem gengur lengra og gerir ráð fyrir 80% samdrætti á losun um miðja öldina. Frambjóðendurna greindi á um leiðir að því marki, m.a. lagði McCain áherslu á að byggja fleiri kjarnorkuver. Þess er að vænta að Obama sem forseti leggist á árar með Evrópuríkjum og fleiri í baráttunni við loftslagsbreytingar og þannig náist ásættanleg niðurstaða í samningum um losun eftir 2012.   Lausnir með félagslegu ívafiOrðstír Bandaríkjanna hefur ekki verið jafn hraklegur og undanfarin ár og væntingarnar um að Obama snúi því dæmi við eru að sama skapi miklar. Þótt stefna hans þyki róttæk á bandarískan mælikvarða og keppinautar hans vestra hafi jafnvel stimplað hann sem sósíalista eru slíkar einkunnir án innihalds. Á evrópskan mælikvarða getur Obama talist frjálslyndur og opinn fyrir félagslegum úrræðum. Í kosningabaráttunni boðaði hann lækkun skatta á millistéttarfólk en hækkun á hátekjur og stórfyrirtæki. Í viðbrögðum við kreppunni mun hann með ráðgjöfum sínum eflaust líta til New Deal stefnu Roosevelts og rifja upp heilræði hagfræðinganna Keynes og Galbraith um hlutverk ríkisins. Öryggisnet í heilbrigðismálum og efling mennta og nýsköpunar mun bera hátt, studd af keppinaut hans Hillary Clinton. Til að ná slíkum endurbótum fram er nú til staðar sterkur þingmeirihluti demókrata og nýfrjálshyggjan er vart lengur til trafala. Efnahagsrisi á brauðfótum Sem efnahagsveldi standa Bandaríkin nú veikar en lengst af í sögu sinni og flestir sjá fyrir sér að þungamiðja á því sviði færist hægt og bítandi til Asíu. Bandaríkin eru skuldugasta stórveldi í heimi og hefur síðasta áratuginn lifað stórlega um efni fram. Stærsti lánardrottinn þessa risa á brauðfótum eru Kínverjar, sem í sívaxandi mæli hafa verið að kaupa upp fyrirtæki og lendur vestanhafs. Efnahagskerfið hefur líkt og hérlendis byggst á lántökum og bankar falboðið almenningi lán, ekki síst til húsnæðiskaupa. Hallinn á fjárlögum Bandaríkjanna nemur um þessar mundir vel yfir einni trilljón dollara eða um 7,5% af vergri þjóðarframleiðslu. Þjóðarbúið sem Obama á brátt að veita forystu skuldar nú yfir 11 trilljónir dala. ............

Sjálfbærni er hugtak sem er órafjarri og yfir heimsbyggðinni hvílir skuggi sjálfseyðandi búskaparhátta. Það mun sjást áður langt um líður hvernig Obama, þessum hæfileikaríka og heillandi ræðumanni með rætur í frumskógum Afríku, gengur glíman við vandamálin. Við ríkjandi aðstæður er góð tilbreyting að sjá vaskan mann í forystu þar vestra og skynja þá vakningu sem fylgt hefur framboði Baracks Obama.

.....

Þegar ljóst var í nóvember sl. að Barack Obama yrði næsti forseti Bandaríkjanna ritaði ég ofangreindan pistil á heimasíðu mína www.eldhorn.is/hjorleifur Hann er birtur hér af tilefni þess að Obama tekur formlega við embætti í dag, 20. janúar 2009.

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Gegn ÞESSU. Einskis megnugur, enda í sama liði.  Hvað þá ÞESSU. Ekki séns.

Jón Steinar Ragnarsson, 20.1.2009 kl. 12:22

2 Smámynd: Ásta Steingerður Geirsdóttir

Mér líst vel á strákinn. Ég held hann eigi eftir að "plumma" sig drengurinn sá arna. Hann fær allar mínu bestu óskir og alla mína umframorku mun ég senda honum.  Til hamingju Ameríka.

Ásta Steingerður Geirsdóttir, 20.1.2009 kl. 23:37

3 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Ég vona sannarlega að með Obama hefjist nýir tímar í USA og í heiminum. Þar sem löng og álfur reyna að stilla til friðar, efla jafnræði og skiptinguna.  SPillinguna burt og betra líf til handa öllum.

Baldur Gautur Baldursson, 22.1.2009 kl. 09:02

4 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Tja, hann virðist þegar farinn að standa við stóru orðin með því að undirbúa lokun Guantanamo fangelsisins. Ég held að aðal prófsteinninn verði samt yfirgangur síonista gagnvart Palestínumönnum.

Björgvin R. Leifsson, 22.1.2009 kl. 21:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband