10.1.2009 | 00:44
Iðnaðarráðherra viðheldur sérkjörum fyrir stóriðju
Iðnaðarráðherra Samfylkingarinnar mun leggja fyrir Alþingi innan skamms að staðfesta svonefndan fjárfestingarsamning vegna allt að 360 þúsund tonna álvers í Helguvík. Hefur ráðherrann þegar fallist á samninginn fyrir sitt leyti en í honum felast sérkjör fyrir álbræðslu Norðuráls umfram annað atvinnulíf í landinu. Samningurinn hefur ekki verið gerður opinber en Össur ráðherra segir hann hliðstæðan sérsamningi vegna álbræðslu Alcoa-Fjarðaáls á Reyðarfirði. Með þessu gerist ráðherrann forgöngumaður fyrir áframhaldandi sérkjör til handa stóriðjunni á kostnað annarrar atvinnustarfsemi í landinu.
Hópur fólks innan Samfylkingarinnar sem kallar sig Græna netið varaði 5. janúar sl. sterklega við þessum samningi sem feli í sér ígildi nokkurra miðjarða króna ríkisstyrks að því er fram kemur á heimasíðu Samfylkingarinnar. Þar má m.a. lesa:
"Stjórn Græna netsins lýsir miklum efasemdum og furðu vegna svokallaðs fjárfestingarsamnings sem iðnaðarráðherra hyggst "láta staðfesta" við álfélagið sem hyggur á rekstur við Helguvík. ... Sé það krafa frá Sjálfstæðisflokknum að stjórnvöld efni til sérstakrar fyrirgreiðslu við Helguvíkuráformin spyr stjórn Græna netsins hversu langt forystumenn Samfylkingarinnar hyggist ganga fyrir stjórnarsamstarf sem ekki nýtur trausts meðal þjóðarinnar. Við hvetjum ráðherra flokksins og þingmenn að leggja þegar í stað frá sér þetta afsláttarplagg og móta þess í stað skýrar áætlanir um uppbyggingu atvinnulífs sem hæfir Nýja Íslandi, á grundvelli grænnar orku, hugvits og skynsamlegrar nýtingar náttúruauðæfa."
Össur hafnar þessari gagnrýni í grein í Morgunblaðinu 9. janúar og telur þennan gjörning lýsandi fordæmi og segir orðrétt: "Úr iðnaðarráðuneytinu verður því áfram kastað beitum sem reist gætu stórfiska handa samfélagi í nauðvörn andspænis hrikalegum horfum um atvinnuleysi." - Hér er á ferðinni nákvæmlega sama réttlætingin fyrir sérkjörum handa orkufrekum stóriðjufyrirtækjum eins og heyra mátti í tíð ríkisstjórna Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, nema þá var beitt byggðarökum. - Samfylkingin segist með þessu ætla að halda áfram sömu stóriðjustefnunni og iðnaðarráðherrann dregur ekkert af sér í stórkarlalegum yfirlýsingum.
Í þessari atvinnustefnu Samfylkingarinnar felast kaldar kveðjur til þeirra sem tala fyrir breyttum áherslum í atvinnuuppbyggingu og stuðningi við sprotafyrirtæki. Orð iðnaðarráðherrans og yfirlýsingar um að hlúa beri að sprotastarfsemi eru ómerk og svo virðist sem hann botni hvorki upp né niður í hvers konar jarðveg þurfi til að hlúa að slíkum nýgræðingi.
Andstæður eru að skerpast innan Samfylkingarinnar milli ráðherranna sem feta slóð Valgerðar Sverrisdóttur í stóriðjumálum. Þannig koma fram sterkar aðvaranir frá fleirum en Græna netinu. Framskvæmdastjóri Samfylkingarinnar Skúli Helgason segir t.d. um álstefnuna í áramótagrein á heimassíðu flokksins:
"Sú atvinnustefna klauf þjóðina í andstæðar fylkingar, rétt eins og hersetan frá 1949 og enn eimir eftir af þeirri hugsun í stjórnmálunum að böl eins og dunið hafa á þjóðinni síðustu mánuði megi bæta með nýju álveri, helst fleiri en einu, hratt og vel. Þetta er úrelt hugsun, einn skýrasti lærdómur haustsins er sá að í stórtækum úrræðum eins og álverum liggur vandinn ekki lausn hans ..."
Við þetta er því að bæta að ofan á allt annað er alls óvíst um orkuöflun til álvers í Helguvík. Aðeins hefur verið tryggð raforka fyrir fjórðung umrædds álvers og jafnvel þótt allar hugmyndir um viðbót frá jarðhitavirkjunum að viðbættri Búðarhálsvirkjun séu teknar með í dæmið hrekkur það ekki til. Óðagot af því tagi sem blasir við í undirbúningi framkvæmda í Helguvík ekki síður en í áformunum um álver á Bakka við Húsavík er ávísun á hrikaleg mistök ofan á allt annað sem tengist stóriðjunni.
Athugasemdir
Sammála þessum ágæta pistli. Þetta er vægast sagt undarleg afstaða hjá iðnaðarráðherra eða ríkisstjórninni allri því hún ber ábyrg á þessu og enginn þar á bæ hefur hreyft andmælum opinberlega.
Þó litið væri fram hjá náttúruspjöllum, sem engin ástæða er til að gera, þá segir sig sjálft að það er óhagkvæmt að semja í þessari stöðu
Álverð er á niðurleið enda eru miklar birgðir til af áli og það ræðst enginn í byggingu álvera á þessum tíma nema stórri gulrót sé veifað.
Sigurður Þórðarson, 10.1.2009 kl. 01:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.