Hikandi iðrunarmerki ráðamanna um áramót

Það var fróðlegt að fylgjast með ræðum oddvita eins og forsætisráðherra og forseta Íslands um áramótin. Báðir sýndu nokkur iðrunarmerki út af stuðningi við útrásina og að hafa sofið á verðinum, fosetinn þó ákveðnar en forsætisráðherrann. Betra en ekki - svo langt sem það nær. Það breytir ekki því að báðir koma laskaðir úr áföllum ársins og geta ekki vænst þess að verða teknir alvarlega í sínum hlutverkum á næstunni.

Langsamlega skeleggasta röddin úr toppkórnum heyrðist frá Karli biskupi sem var í senn beinskeyttur og talaði mannamál og fór að minna á föður sinn og forvera á biskupsstóli. Það var tími til kominn að vara við hugtakinu Nýja Ísland með viðbótinni hf eins og Karl gerði, því að enn sjást engin merki þess frá valdhöfum að þeir hafi lært nokkurn skapaðan hlut af hruninu og eru þess sýnilega albúnir að halda við hringekjunni komist hún í gang á nýjan leik.

Annars eru það leikfimiæfingarnar kringum Evrópusambandið sem vekja mesta athygli mína. Um ESB sagði að vísu forsetinn ekki nokkurn skapan hlut, hvað sem veldur, en forsætisráðherrann vill nú skella sér í kosningar um það eitt,  hvort leggja eigi inn aðildarumsókn og nýta góuna í að fá um það svar frá kjósendum, hafi ég skilið hann rétt.  Ingibjörg hefur nú botnað þá vísu með því að vekja athygli á að til greina komi að kjósa í leiðinni til Alþingis. Hún er greinilega orðin nokkuð uggandi um Samfylkinguna í þeim ólgusjó sem ríkisstjórnin hefur stigmagnað að undanförnu, sjálf orðin viðskila við þjóðina.

Nú er það opinbert leyndarmál að ekki þarf neinar "aðildarviðræður" við Evrópusambandið til að fá fram hvaða kostir bjóðast á Brussel-eyrinni. Allt liggur það opið og klárt í sáttmálum og reglum ESB og spurningin bara hvort menn nenna að lesa þá texta og þá aðildarsamninga sem liggja á borðinu og eru orðnir býsna margir, ekki færri en 27 ríki flækt í þetta net, þar sem fjármagnið hefur forgang umfram allt annað. Stjórnmálaflokkarnir eiga að hafa til þess döngun, vilji þeir láta taka sig alvarlega framvegis, að svara hver fyrir sig, hvort þeir vilji að Ísland gangi í Evrópusambandið og fórni þannig því sem eftir lifir af fullveldinu, auk alls annars sem glatast í þeirri vegferð. Þeir stjórnmálaflokkar sem ætla að bera kápuna á báðum öxlum í þessu örlagaríka máli fyrir framtíð Íslendinga dæma sig úr leik fyrr en síðar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband