Samfylkingin og seðlabankastjórarnir

Margt skoplegt ber við í stjórnmálaumræðunni, einnig þegar alvörumál eru á dagskrá. Meirihluti bankaráðs Seðlabankans samþykkti launahækkun upp á allt að 200 þúsund krónur á mánuði til bankastjóranna þriggja. Að samþykktinni stóðu fulltrúar fyrrverandi ríkisstjórnarflokka og núverandi stjórnarflokka, þar í hópi tveir fulltrúar Samfylkingarinnar. Aðeins einn bankaráðsmaður, Ragnar Arnalds fulltrúi Vinstri grænna greiddi atkvæði gegn þessari launahækkun.

Þessi ákvörðun hefur eðlilega valdið hneykslan og ekki lítur sporslan betur út eftir að upplýst hefur verið að auk launa upp á um 1,5 milljónir kr. á mánuði sé bankastjórunum greitt sérstaklega fyrir þá nauðung að þurfa að sitja fundi með bankaráðinu, þókknun sem nemur 110 þúsund kr. á mánuði að mér skilst.

Varla hafði þessi ákvörðun meirihluta bankaráðsins verið kynnt þegar formaður Samfylkingarinnar lýsti því aðspurð að þessi ákvörðun væri afar óheppileg og gott ef ekki röng. Síðan bættust í hópinn á Alþingi í gær (12. júní) þingflokksformaður Samfylkingarinnar Lúðvík Bergvinsson sem sagði þetta fráleit skilaboð inn í það efnahagsástand sem nú ríkir og Helgi Hjörvar sagði ákvörðunina "hljóta að vekja efasemdir um bankastjórnun." Um leið fagnaði hann því þó sérstaklega að fulltrúar Samfylkingarinnar í bankaráðinu hefðu fengið þessari rausnarlegu hækkun áfangaskipt!

Fyrirfram vissu menn að Samfylkingin er merkilegur jafnaðarmannaflokkur en að boðleiðirnar innan hans væru með þessum hætti er eflaust nýtt fyrir marga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband