13.5.2007 | 10:55
Bjarghringur ríkisstjórnarinnar
Ríkisstjórnin heldur þingmeirihluta sínum með 48,4% atkvæða á bak við sig. Íslandshreyfingin fékk 3,3% atkvæða sem voru langt frá því að skila þingsæti en nægðu sem bjarghringur fyrir stóriðjustjórnina. Fyrir mánuði benti ég á að þessi gæti orðið niðurstaðan og kallaði það óvinafagnað að efna í slíka vegferð. Enginn véfengir rétt manna til að spreyta sig með nýju framboði en málefnastaðan bauð ekki upp á flan af þessu tagi af hálfu stóriðjuandstæðinga örfáum vikum fyrir kosningar.
Það var dapurlegt að hlýða á Ómar Ragnarsson á talninganótt reyna að breiða yfir afleiðingar gerða sinna. Engin innistæða er fyrir þeirri fullyrðingu hans að Í-listinn hafi komið með ný rök gegn stóriðjustefnunni inn í kosningabaráttuna. Þau lágu öll fyrir áður en það framboð hans birtist. Örvæntingarfullar skýringar um að Í-listinn hafi tekið eitthvað teljandi af fylgi sínu frá Sjálfstæðisflokknum eru út í hött. Um þetta er hins vegar ekki að fást nú að leikslokum. Eftir stendur að framboð Í-listans hafði úrslitaáhrif á niðurstöðu kosninganna og getur haft í för með sér keðjuverkun á landsstjórnina á því kjörtímabili sem hófst í morgunsárið 13. maí.
Athugasemdir
Bull, grátur og gnístran tanna. Flest allir sem ég ræddi við í gær og kusu okkur hefðu annars kosið D lista (eins og ég gerði áður).
Á aðeins 3 mánuðum tókst að byggja afl sem þrátt fyrir lítt vinsæl stefnumál hjá t.d. nánast allri landsbyggðinni tókst að fá um 6000 atkvæði. Frábær árangur.
Og hey, allt hjal um að Íslandshreyfingin hafi hjálpað stjórninni er stórkostleg della. Skv. síðustu könnunum fyrir kosningar þá tók Íslandshreyfingin flest sín atkvæði frá B og D!! Þrátt fyrir það tókst D að stórsigra í þessum kosningum miðað við flokk sem er búinn að sitja nú þegar í 16 ár.
Félagshyggjufólk B lista er komið til okkar og Samfylkingar, hvernig stendur á því að félagshyggjufólk D lista treystir sér ekki til þess að standa með persónulegum skoðunum?
En ótvíræðir sigurvegarar án viðmiðs við eytt eða neitt eru að sjálfsögðu VG. Til hamingju VG.
Nú er það okkar allra að standa saman að því að vera stjórnvöldum landsins til halds og trausts við það að verja landið okkar og samfélag.
Ekkert bruðl, grænt ER arðbært.
Baldvin Jónsson, 13.5.2007 kl. 20:04
Sæll Hjörleifur,
Það er sérstakt að sjá gamlan pólitíkus ráðast að hugsjónafólki fyrir það að hafa nýtt sér lýðræðislegan rétt sinn til að gefa kost á sér til setu á Alþingi.
Það er tvennt, sem helst varð til þess, í þessum kosningum, að tryggja áframhaldandi setu D/B stjórnarinnar, ef af verður, en það eru kjósendur stjórnarflokkanna annars vegar og ólýðræðislegt kosningakerfi hins vegar.
Væri ekki nær að spyrja manninn í speglinum hvers vegna VG fataðist flugið eftir að hafa mælst með nærri 28% fylgi í skoðanakönnunum í mars ?
Sigurður Ingi Jónsson, 15.5.2007 kl. 10:14
Góðu vinir. Ekki lasta ég hugsjónir, mættu dafna víða. En stundum er kapp best með forsjá. Íslandshreyfingin vissi af 5% þröskuldinum þegar hún fór af stað og að honum yrði ekki breytt í þetta sinn. Þess vegna var áhættan sem tekin var með framboði Í-listans fáum vikum fyrir kosningar mikil og niðurstaðan varð stjórninni til bjargar, því miður.
Hjörleifur Guttormsson, 15.5.2007 kl. 22:03
Ég man ekki eftir að hafa verið sammála þér áður Hjörleifur, en svo sannarlega er ég það nú í þessu máli. Auvitað varði Í-listinn stjórnina falli. Ef þessi rúml. 3% sem kusu Í voru mest allt frá D, þá þýddi það að D hefði fengið um 40% í kosningunum. Það stenst ekki.
Gunnar Th. Gunnarsson, 16.5.2007 kl. 02:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.