20.4.2007 | 20:04
Olíustóriðja: Léleg kosningabeita fyrir Vestfirðinga
Stjórnarflokkunum voru heldur betur mislagðar hendur þegar miðla átti stóriðju til Vestfjarða. Fráfarandi sendiherra var gerður út af örkinni með uppbakaða olíuhreinsunarstöð sem hann fékk að leika sér með sem starfsmaður Halldórs Ásgrímssonar í utanríkisráðuneytinu fyrir áratug. Þá fékk hún falleinkunn hjá Júlíusi Sólnes sem kafaði ofan í málið og taldi það síst skárra í umhverfislegu tilliti en álbræðsluna eystra og virkjanir í hennar þágu. Þá þegar var ljóst að mengun yrði gífurleg, losun gróðurhúsalofts síst minni en frá risaálveri og áhætta óforsvaranlega mikil af olíuflutningum. Hvergi er pláss fyrir slíka verksmiðju undir þaki Kyótóbókunarinnar, einnig þótt engar nýjar álverksmiðjur bættust við. Leiksýningin í kringum þetta útspil ríkisstjórnarinnar er af þeim toga að Spaugstofan væri fullsæmd af. - Ítarlegar upplýsingar um málið finnið þið á heimsíðu minni www.eldhorn.is/hjorleifur
Athugasemdir
Það má spyrja hvort það sé viturlegt að leyfa Olíurisum að komast enn frekar á koppinn á Íslandi. Orka er það sem Ísland á og orkuaðgangur er ein orsök stríða og mannlegra þjáninga.
Þar fyrir utan eiga Vestfirðingar fullt af fiski sem einhverjir braskarar eru búnir að ræna af þeim löglega víst. Ætli ekki sé best að byrja þar, hvað varðar atvinnuástand?
Ólafur Þórðarson, 20.4.2007 kl. 20:12
Tek undir með þér Hjörleifur, mér finnst nánast að rífa úr fólki hjartað að leggja fram svona hugmynd korter í kosningar sem er alkunna að er engin leið að kæmist í gegnum skipulag og umhverfismat. A.m.k. miðað við þær samþykktir sem við höfum gert sem þjóð á alþjóðlegum vettvangi.
Mín kynslóð er orðin gríðarlega þreytt á þessum kosningaleik sem við höfum horft upp á í 16 ár, þar sem miklu er lofað og fáu skilað.
Af hverju er ekki hægt að stunda kosningabaráttu sem snýst um raunveruleika? Mér finnst reyndar VG t.d. hafa staðið sig afar vel þar, þið eigið mikið hrós fyrir að segja bara hreint út hvað þið meinið og ætlið.
Óþolandi þegar stjórnarflokkarnir eru alltaf að gefa eitthvað óljóst í skyn sem samviska þeirra veit vel að þeir geta annað hvort engan veginn staðið við eða þá að þeir vita að það er engin hljómgrunnur fyrir í þeirri mynd sem þeir teikna svona rétt fyrir kosningar.
Tökum afstöðu gott fólk - kjósum með hjartanu og betri vitund.
Baldvin Jónsson, 21.4.2007 kl. 12:46
Sæll
Er eitthvað svo daumórakenn hugmynd. Olíuhreinsunarstöð? Minnir á bandarískar kvikmyndir í oíubransanum.
Væri nær að skila Vestfirðingum aftur þeim veiðiheimildum sem þeir seldu, sérstaklega smærri útgerðir. Hversvegna seldu menn kvótann? Það er góð spurning. Ein af ástæðunum var, að eftir skerðinguna/helförina (löglega stolnar af löggjafanum) árin 94-95, höfðu menn ekki nægilegann kvóta til að geta rekið útgerð sína og lifað mannsæmandi lífi
Þessu umrædda aðför/helför var sett á yfir alla línuna til hagræðingar í greininni án þess að taka tillit til hvernig menn stóðu. Margir hættu og fluttu burtu og voru beinlínis neyddir til að selja ella segja sig til sveitar.
Samt hafa sérstaklega smábátaútgerð/línubátar snúið til baka vestur og er það vel. Er eins og það sé bannorð að ræða kvótakerfið út frá þessu sjónarmiði.
Í hnotskurn hafa stóru útgerðirnar gleypt hinar minni án þess að nokkur stjórnmálaflokkur hafi hreyft andmæum eða gert sér grein fyrir hvað gerðist.
Byggðakvóti er ekki leiðin það verður bara sami tapreksturinn eins var með stórar og smáar bæjarúgerið áður fyrr.
Nauðsynlegt er að aðskilja veiðar og vinnslu í landi, auka kvótann á Vestfjörðum til þeirra sem þar halda uppi atvinnulífi. (Það vilja vinstri flokkarnir ekki einu sinni heldur)
Umræddar umbætur þurfa að eiga sér stað með samstarfi við þá aðila sem um er rætt en ekki að láta fiskistofumenn og co skipuleggja þau í glerhúsi fyrir sunnan uppfulla af brengluðum hugmyndum um gjafakvóta og eignaraðild.
Get bætt við að ég tala af persónulegri reynslu eftir að hafa sett aleigu mína í rekstur trillútgerðar rétt fyrir umrædda helför.
Vestfirðingar verða að berjast fyrir meiri veiðiheildir sjálfir, fylgja því eftir eimmitt nú fyrir komandi kosningar. Sama má segja um landbúnað þar verða þeir að halda fast á sínum hlurt í framleiðslu.
Með kveðju.
Sigríður Laufey Einarsdóttir, 22.4.2007 kl. 08:17
Mig langar bara að benda á eitt. Vestfirðingar eru mun fleiri en bara þeir útgerðarmenn sem seldu kvótann sinn. Ég er ekki að reyna að verja eitt né neitt og get lítið um það sagt hvers vegna kvótinn fór af svæðinu. En VIÐ Vestfirðingar seldum ekki kvótann, heldur þeir sem áttu hann væntanlega, og um það höfðu fæst okkar einhvað að segja um. En væntanlega eru þeir Vestfirðingar líka sem seldu kvótann.
Allavega seldi ég ekkert og er Vestfirðingur :)
Vestfirðir, 22.4.2007 kl. 09:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.