Sláum skjaldborg um gömlu húsin

Þessi síðasti vetrardagur gleymist engum sem urðu vitni að brunanum í Austurstræti. Hann minnir á þann atburð fyrir réttum 30 árum þegar mörg húsanna í Bernhöftstorfunni stórskemmdust í eldi 1977. Þá höfðu um árabil staðið átök um verndun húsanna, en búið var að hanna stjórnarráðsbyggingu á svæðinu. Endurbygging og verndun varð ofan á í ríkisstjórn sem undirritaður átti sæti í en heiðurinn af björgun þeirra áttu samtök áhugafólks.

Síðan hefur skilningur vaxið á gildi gamalla bygginga og nú að kvöldi dags eftir brunann efast fáir um að húsin við hornið á Lækjargötu og Austurstrætis verði endurbyggð sem næst upprunalegu horfi. En það eru víða gamlar byggingar í Reykjavík sem slá þarf skjaldborg um og þessi brunadagur þyrfti að verða til að skerpa skilning á að þær þurfi að vernda. Einmitt í morgun átti RÚV viðtal við Magnús Skúlason forstöðumann Húsafriðunarnefndar þar sem verndun á því sem óskert er af götumynd Laugavegar var á dagskrá. Vonandi verða atburðir dagsins til að hvetja alla hlutaðeigandi til dáða um það stórmál og varðveislu hliðstæðra hverfa í höfuðstaðnum okkar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband