31.3.2007 | 22:57
Sigur í Hafnarfirði þrátt fyrir ofurefli
Úrslit íbúakosninganna í Hafnarfirði þar sem andstæðingar stækkunar álversins í Straumsvík unnu glæsilegan sigur þrátt fyrir ofurefli mun lengi í minnum hafður. Á móti Sól í Straumi stóð harðsnúin áróðursvél Alcan sem jós úr sjóðum sínum til að hræða Hafnfirðinga til fylgis við nýja risaálverksmiðju. Á hliðarlínunni sat þögull meirihluti Samfylkingarinnar sem leynt og ljóst hefur staðið að undirbúningi stækkunar álversins með bæjarstjórann Lúðvík Geirsson í broddi fylkingar. Í huga Alcanforystunnar og ráðandi meirihluta Samfylkingarinnar áttu kosningarnar aðeins að vera formsatriði til að fá lokastimpil á undirbúning að framkvæmdum við stækkun. Áætlanir Alcan gerðu ráð fyrir að framleiðsla í nýjum áfanga hæfist árið 2010.
Sigursveit Péturs Óskarssonar formanns Sólar í Straumi og Guðrúnar Ágústu Guðmundsdóttur bæjarfulltrúa Vinstri grænna hefur lyft Grettistaki við erfiðar aðstæður og sent ríkisstjórn stóriðjuflokkanna skilaboð sem ekki verða misskilin. Mikill fjöldi fórnfúsra einstaklinga lagðist á eitt með óeigingjörnu starfi og nógu margir Hafnfirðingar höfðu framsýni til að tryggja þessa niðurstöðu. Þetta var afar mikilvægur áfangi í baráttu gegn stóriðjustefnunni sem fylgt verður eftir í alþingiskosningunum 12. maí.
Hjörleifur Guttormsson
Athugasemdir
Heyr heyr, þetta fólk á mikið hrós skilið fyrir ötula baráttu og fórnfýsi.
Næsta spurning sem að flokkarnir þurfa að svara hver fyrir sig er hvað ætla þeir að standa fyrir gagnvart frekari framkvæmdum, t.d. á Húsavík?
Baldvin Jónsson, 6.4.2007 kl. 23:46
En má til með að bæta við að vonandi er þetta einmitt til marks um hvert landsmenn vilja stefna 12. maí. Lýðurinn nýtti sér rétt sinn í lýðræðislegum kosningum í Hafnarfirði sem fóru vel sem betur fer. Mitt mat er að Samfylkingin hafi einmitt mist þó nokkurn trúverðugleika í þessum leik með því að þora ekki að taka afstöðu sem meirihluti bæjarstjórnar.
En í þessu tilfelli fyrir okkur öll var það kannski bara vel. Hafði a.m.k. í þessum áfanga afar sætan endi. Þó lýtur út fyrir núna að Alcan með fullum stuðningi bæjarstjórnar stefni ótruðir í 350 tonnin.
Baldvin Jónsson, 6.4.2007 kl. 23:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.