31.3.2007 | 10:42
Landnám álhringanna
Þjóðin er að vakna upp við veruleika sem er ekki nýr en hefur mörgum verið dulinn. ÍSAL í Straumsvík hóf starfsemi sína 1970 og hafði þá þegar náð ítökum inn í þá stjórnmálaflokka sem stóðu að samningunum við Alusuisse 1966. Síðar festust fleiri flokkar í því neti, m.a. með því að standa vörð um útsölusamning á raforku sem bundinn var í áratugi.
Aðdragandi kosninganna í Hafnarfirði segir allt um stöðuna, hvernig auðhringurinn hefur hreiðrað um sig í sveitarfélaginu og heldur núverandi meirihluta Samfylkingarinnar í gíslingu. Forsætisráðherra landsins hefur sagt Hafnfirðingum hvernig þeir eigi að greiða atkvæði og bæjarfulltrúar meirihlutans taka undir með þögninni. Hver svo sem verða úrslit íbúakosninganna mun krabbamein álhringanna halda áfram að grafa um sig, því að fjölþjóðafyrirtæki hafa langtímastefnu og gefast ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Að jafnaði reyna auðfélög af þessum toga að tryggja hagsmuni sína að tjaldabaki með pólitískum ítökum en nú hefur orðið breyting á. Alcan með Rannveigu Rist og blaðursfulltrúa sinn í fararbroddi gengur opinskátt fram á völlinn eins og um stjórnmálaflokk sé að ræða og skirrist ekki við að ausa út tugmiljónum í baráttu um hugi Hafnfirðinga. Það sem kynnt var sem nýung í íbúalýðræði hefur breyst í sýnikennslu um hvers er að vænta nú og framvegis af erlendu stóriðjufyrirtækjunum og innlendum handlöngurum þeirra.
Aðeins einörð andstaða á landsvísu við frekara landnám álhringanna getur stöðvað ráðandi ítök þeirra í stjórnmálalífi hérlendis, jafnt í ríkisstjórn sem innan sveitarfélaga. Þar dugir ekki að segja eitt á Húsavík og annað á Reykjanesi eða Suðurlandi. Í skjóli slíks hringlandaháttar reynist fjársterkum aðilum auðvelt að deila og drottna.
Hjörleifur Guttormsson
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.