Fáeinum dögum fyrir atkvæðagreiðslu um margföldun á umsvifum Alcan í Hafnarfirði er send út tilkynning um að auðhringurinn sé reiðubúinn að greiða fyrir því að raflínur í grennd við álverksmiðjuna verði settar í jörð svo fremi að Hafnfirðingar samþykki nýja 280 þúsund tonna risaálbræðslu við hlið þeirrar gömlu.
Þá sendi Alcoa miðvikudaginn 28. mars út fréttatilkynningu á veraldarvefnum þess efnis að fyrirtækið fagni sérstaklega (embraces) ákvörðun Alþingis um að stofna Vatnajökulsþjóðgarð. Þar segir ennfremur að Alcoa hafi um nokkurra ára skeið stutt við stofnun þjóðgarðsins og fylgst náið með undirbúningi að stofnun hans. Vitnað er sérstaklega til orða Tómasar Sigurðssonar forstjóra Alcoa Fjarðaáls sem segir fyrirtækið "lengi hafa stutt við verndun þessa náttúrusvæðis þar sem það er hluti af okkar sjálfbæru hugmyndafræði". Síðan fylgir löng þula um framleiðslu Alcoa á heimsvísu og klykkt er út með því að Alcoa hafi nýlega fengið útnefningu auðmannaráðstefnunnar í Davos í Sviss (World Economic Forum) sem ein af fremstu sjálfbæru samsteypum á heimsvísu.
Bakgrunnur þessarar hógværu fréttar er sennilega fjárstyrkur að upphæð 20 milljónir króna sem Bernt Reitan aðstoðarforstjóri Alcoa afhenti Sigríði Önnu Þórðardótur umhverfisráðherra 15. maí 2006 og renna skyldi til uppbyggingar þjóðgarðanna í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum.
Það fylgir hins vegar ekki sögunni að skilningur Alcoa á sjálfbærni hefur einkum birst Íslendingum í því að fyrirtækið hljóp undir bagga með íslenskum ráðamönnum til að koma á fót Kárahnjúkavirkjun og hefur síðan með byggingu álbræðslu á Reyðarfirði umturnað austfirsku samfélagi.
Raflínur sem liggja að Fjarðaál-verksmiðjunni kringja nú þorpið á Reyðarfirði. Þar á Alcoa leik á borði þegar fyrirtækinu dettur í hug að stækka verksmiðju sína að bjóðast til að leggja þá gálga í jörðu.
Höfundur er náttúrufræðingur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning