Írland finnur fyrir blessun evrunnar

Innantökur Evrusvæðisins halda áfram. Í kjölfar Grikklands fylgir Írland sem nú skal dregið í böndum á sóttarsæng af ESB-forystunni, þvert á vilja og yfirlýsingar ráðamanna í Dublin að þeir geti séð um sig sjálfir. Óttinn við að gríska veikin sé að breiðast út um allt evrusvæðið er slíkur að van Rompuy "forseti ESB" sagðist í gær óttast um framtíð sambandsins. Á eftir Írlandi smitist Portúgal og þá fer að styttast í að Ítalía og Spánn taki veikina, en það eru bitar sem engir öryggissjóðir ráða við að kyngja. Vandi þessara ríkja er af mismunandi toga en sameiginlegt þeim er að vera reyrð í spennitreyju evrunnar. Það er þó sú höfn sem Samfylkingin vill sigla Íslandi inn í, hvað sem það kostar og megi það taka 10-20 ár í aðlögun. Þann 12. október sl. lásum við í Morgunblaðinu langt fagnaðarerindi Össurar utanríkisráðherra um framtíð Íslands innan ESB. Hann sagði þar m.a. um gjaldmiðilinn:

"Kostir okkar í þessum efnum eru einungis tveir: Króna í fjötrum hafta eða evran. ... Evran tryggir okkur viðskiptafrelsi á nýjan leik, agar fjármálalífið, og skapar stöðugra umhverfi, þar sem vextir verða sambærilegir og í helstu viðskiptalöndum okkar."

Fróðlegt er að bera þennan boðskap saman við þann veruleika sem nú blasir við á Írlandi. Viðbótarkostnaður á erlend lán er að sliga Íra, þar sem áhættuvextir eru um 10% á sama tíma og Þjóðverjar og fleiri búa við 3%. Fjárlagahalli Íra nemur nú um 30% af vergri landsframleiðslu og er um tífalt hærri en forskrifað er í Maastricht-reglunum. Tala atvinnuleysingja á Írlandi er að nálgast hálfa milljón og aðeins Spánn og Lettland hafa hærra atvinnuleysishlutfall.

Hvernig væri að Össur legði lykkju á leið sína og kæmi við í Dublin á næstunni til að halda þar fyrirlestur um ágæti evrunnar og framtíðarsýn sína um Ísland í ESB.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Van Roumpy ber ekki hag Íra fyrir brjóst, það er ekki af þeim hvötum sem hann vill að Írar undirgangist seðlabanka Evrópu. Van Roumpy er einungis að hugsa um að verja evruna falli, þennan handónýta gjaldmiðil, hann óttast að ef Írskir bankar falli muni evran fara með.

Krónan er ekki vandamálið hjá okkur. Vandamálið er stjórnun hagkerfisins, það er sama hver gjaldmiðillinn er, ef hagkerfinu er ekki stjórnað af skynsemi.

Gunnar Heiðarsson, 17.11.2010 kl. 13:00

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Af hveju sjá menn þetta ekki?  Þetta er vonlaust dæmi.  Innan evrópusambandsins eru efnahagslega veikar þjóðir með sveiflukennda afkomu og svo fáar afar sterkar og stöðugar þjóðir.  Allar jöfnunaraðgerðir sterku þjóðanna til að halda í gengi og verðbólgu bitna alltaf neikvætt á þeim sem veikari eru fyrir.

Þessa kvikasilfurbólu efnahagshörmunga, geta þeir aldrei höndlað eða hamið. Hún mun hlaupa svona á milli smærri þjóða með sínu eyðandi afli.

Jafnvel má færa rök fyrir því að ef þeim tekst að neyða neyðarlánum upp á Íra (sem eru jú hávaxtaskuldir og fötrar til framtíðar) Þá versnar ástandið hjá þeim sem veikir stanada annarstaðar en ekki öfugt.

Hér er bara verið að míga í skóna því svona inngrip vara aðeins til bóta til skamms tíma auk þess sem verið er að fórna fullveldi og fjárhagslegu sjálfstæði heillar þjóðar fyrir jafnvægi hjá hinum stóru. 

Írar munu glata hærra og hærra hlutfalli landsframleiðslu sinnar í okurvext AGS og hinna heilögu kúa innan sambandsins og eiga sér ekki viðreisnar von. Frá bæjardyrum hrægammanna hjá AGS er það auðvitað hið besta mál. Þeir gera út á þetta án tillits til fólks af holdi og blóði.

Pandóruboxið hefur verið opnað. Það verður ekki aftur snúið með þetta samband. Gátu menn ekki séð það fyrir í ljósi sögunnar?

Hörmungin við þetta hér er að þetta er orðið að trúarbrögðum. Fantasíu um fyrirheitna landið eða frelsarann á erfiðum tímum, rétt eins og gerðist við herleiðinguna til Babylon og seinna við fall Jerúsalem 135AD.

HYsterískar ranghugmyndir, óskhyggja og afneitun.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.11.2010 kl. 22:36

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Kannski vert að hlusta á Max Keiser varðandi þetta mál.  Sér einhver tengsl við hvað er verið að gera hér?

Sér einhver hverskonar hryðjuverk er verið að fremja? Efnahagslegir hryðjuverkamenn ráða ferðinni.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.11.2010 kl. 22:49

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Frá hruni hafa ráðgjafar frá Goldman Sacks, City group og JP MOrgan Chase ofl, valsað um ganga seðalbankans og verið helstu ráðgjafar hans. Banksterar sem eru skjólstæðingar AGS, sem er ekki alþjóðastofnun í neinum skilningi heldur hagsmunasamtök stæstu banstera heimsins. AGS, sem nú hafa tögl og hagldir hér. Öfl sem ráða öllu um EU og þeirra brölt. EU sem er á fullu við að afregúlera landið í fjármálasamhengi og hafa veruð að því í áratug eða meira.

Þeir eru kallaðir til sem bjargvættir og ráðgjafar, sem öllu ullu og matsfyrirtækin þeirra, sem þöndu bóluna með fölsunum eru nú hluti af aftökuferlinu.

Vitfirringin er alger.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.11.2010 kl. 22:59

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Allir glæpaspekúlantarnir, sem ráða nú ferð hafa veðjað á fall evunnar. Það eitt segir að Evran mun hrynja, hvað sem gert er.  Wall street hagnast og N.B. þjóðverjar munu standa með pálmann í höndunum líka.

Menn tala hér um að krónan sé lítil og veik og standist ekki áhlaup. Fréttir: Það er engin mynt svo smá eða stór að hún standist slíkt í eigin krafti.  Evran er hrópandi dæmi um það.  Það er regluverkið eða skortur á því og spillingin í stjórnsýslunni sem er hliðið inn fyrir  spekúlantana.  Það er ekki einu sinni bakdyra megin.

Hérna sitja þeir í seðlabanka og ráðuneytum, sem ráðgjafar! 

Jón Steinar Ragnarsson, 17.11.2010 kl. 23:37

6 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Hvaða heimildir hefurðu Hjörleifur fyrir því að fjárlagahalli Írlands sé 30%? Þetta skýtur ansi skökku við þær tölur sem ég hef séð. Hér eru tölur frá OECD fyrir árið 2009:

http://www.telegraph.co.uk/finance/financetopics/financialcrisis/7269629/Britains-deficit-third-worst-in-the-world-table.html

Þar trónir ísland á toppnum(hefur reyndað eitthvað lagast síðan).

Fyrir forvitnis sakir þar sem þú ert gamall kommúnisti þá fór ég þó inn á áróðursíðu CIA og þar rímar fjárlagahallin mjög við það sem þú ert að segja. Getur verið að íslenskir kommúnistar séu núna farnir að styðja sig við talnaspeki CIA, sem veigrar sér lítið við að myrða og pynta fólk út í heimi, hvað þá að falsa nokkrar tölur. En það væri gaman að vita hvaðan þú fékkst þessa 30% tölu. 

Það væri nú kannski ágætt ef Össur kæmi við í Dublin til að halda þar fyrirlestur um hvernig þessa kreppa hefur kostað hina meðal fjölskyldu margar milljónir í gegnum algert hrun á gengi, 5falt hærri stýrivöxtum en annarsstaðar og margra milljóna krónukostnaði á lánum sínum. 

Staðan er erfið á Írlandi, vissulega. En meira segja þau evru lönd sem hafa orðið allra verst úr kreppunni mega prísa sig sæla ef horft er til skellsins sem við tókum á okkur. Mjög talið þið um mikið atvinnuleysi í ESB og nefnið alltaf verstu dæmin. Það má kannski minna á að atvinnuleysi hefur farið minnkandi í Þýskalandi og atvinnuleysið hefur hrunið af Pólverjum, fór frá 18% árið 2005 niður í 9% 2010. Svo mjög hefur evran staðið þessa kreppu af sér, að nú er atvinnuleysi í USA orðið meira en í ESB.

http://en.wikipedia.org/wiki/Economy_of_the_European_Union

Jón Gunnar Bjarkan, 18.11.2010 kl. 06:54

7 identicon

Þessi pistill Hjörleifs er ótrúlega dapurlegur ef miðað er við að hér fer reyndur stjórnmálamaður sem væntanlega vill leggja eitthvað fram til mikilvægrar umræðu. Helst mætti ætla að einhvers konar sótt herjaði í Evrópu og sjúklingar væru settir í spennutreyju! Erfiðleikar Írlands eru miklir en þar líkt og hér eru þeir heimatilbúnir að mestu leyti. Á 9. áratugnum var litið á Írland sem veika manninn í Evrópu. Þar var lítill hagvöxtur og framþróun. Þetta breytist á 10. áratugnum. Þá verður mikil uppssveifla og Írland kemst í sviðsljósið þess vegna. Mikill vöxtur á sér stað í nýjum greinum. Nefna má lyfjaframleiðslu og tölvugeirann. Á sama tíma á sér stað mikil eignabóla(kunnuglegt?) og fremstur meðal gerenda þar er fjárfestingarbankinn Anglo irish. Sá banki tengist Fianna Fail.  Þar eins og hér springur bólan og í september 2008 lýsir forsætisráðherra landsins því yfir að allar innistæður séu tryggðar. Af þessari ástæðu einni nemur skuld ríkisins 30% af landsframleiðslu. Fjárlagahallinn er nú um 32% af landsframleiðslu og opinberar skuldir 100% af landsframleiðslu. Vandi Íra er einnig vandi ESB og það mun koma til hjálpar. Það er ekki án skilyrða og erfitt verður fyrir íra að sætta sig við það. ESB mun veita miklum fjárhæðum til Íra en líklegt er að kröfur um skattahækkanir(t.d. á fyrirtæki) komi fram. Vandi íra er vandi Íra, ekki evru, dollara eða jens.

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 09:03

8 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

http://www.irishtimes.com/newspaper/breaking/2010/1022/breaking19.html

Inn í þessum fjárlagahalla er bail-out kostnaður sem Írland borgaði inn í bankakerfið sitt. Ef við hefðum notað sömu reikningskúnst þá hefði hallinn árið 2008 væntanlega verið 250%

Jón Gunnar Bjarkan, 18.11.2010 kl. 09:24

9 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

  Annað sagði Robert Christie, Skoti búsettur í Írlandi  í fróðlegu  viðtali  við Sigurð Ragnarson í morgunútvarpi Útvarps  Sögu. Hann sagði ástandið mundu vera miklu verra , ef ekki  væri Evran.  Robert Christie er  sagnfræðingur og blaðamaður. En auðvitað vita Íslendingar búsettir á Skúlagötunni þetta miklu betur en heimamenn.

Eiður Svanberg Guðnason, 18.11.2010 kl. 10:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband