Evrópusamband í uppnámi ekki fýsilegt fyrir Ísland

Hver höndin er upp á móti annarri innan ESB eins og fram kemur nú í aðdraganda leiðtogafundar þess. Efnahagskreppan í einstöku aðildarríkjum dýpkar dag frá degi. Í gær þyrptust 100-200 þúsund Írar út á götur í kröfugöngu gegn ástandinu. Á Írlandi er gjaldmiðillinn evra og gerir það stjórnvöldum ókleift að grípa til sértækra aðgerða. Í Lettlandi hafa geisað götubardagar undanfarið þar sem krafist er afsagnar ríkisstjórnar landsins sem tengt hefur gjaldmiðilinn lati við evru en sú ráðstöfun bindur hendur stjórnvalda. Þetta er þó sú leið sem ýmsir ESB-sinnar hérlendis hafa lagt til með krónuna. Svipað ástand og í Lettlandi getur skapast fyrr en varir í öðrum Eystrasaltsríkjum og víðar innan sambandsins, m.a. í Búlgaríu. Í Grikklandi hefur allt verið í uppnámi mánuðum saman. Í kjarnaríkum ESB, Frakklandi og Þýskalandi grefur óánægja almennings um sig og skýrir það m.a. orðaflaum Sarkosys Frakklandsforseta um siðbættan kapítalisma. Hann hefur ástæðu til að óttast að franskur almenningur rísi upp þegar ástandið versnar.

Hvernig í ósköpunum dettur Samfylkingunni og Framsóknarflokknum í hug að krefjast við þessar aðstæður að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu? 


mbl.is Evrópuríki funda um kreppuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Auðunn Árnason

Þetta er hárrétt hjá þér, ESB er einfaldlega bákn sem getur aldrei gengið upp til lengri tíma litið.Við íslendingar höfum ekkert þangað inn að gera! Ég vona svo innilega að rúmlega helmingur þjóðarinnar skilji og skynji það þegar til atkvæðagreiðslu um það mál kemur og ég vona líka að Vinstri Grænir gefi ekkert eftir í þessu máli!

Auðunn Árnason, 22.2.2009 kl. 22:54

2 Smámynd: Páll A. Þorgeirsson

Hafa íslenskir ráðamenn efni á því að gagnrýna ráðamenn ESB.  Íslendinga 300 þúsund manna þjóð, svona eins og smáhverfi í Evrópu-borg með alla þessa "ráðagóðu" pólitíkusa og bankamenn sem settu þjóðina á hvolft áður en heimskreppan skall á.  Er eitthvað óeðlilegt þó að hrikti í stoðum ESB í heimskreppunni.  Hvað með Kína, Bandaríkin og aðra utan ESB, er það líka ESB að kenna.  Það er rétt hjá þér með Sarkosy, franskur almenningur kann að mótmæla og þar er hlustað.  Franskur almenningur sem mótmælir, er ekki kallaður skríll af ráðamönnum í Frakklandi.  Að tala um ESB sem bákn ?   Má þá ekki tala um Bandaríkin og efnahagsundrið Kína sem bákn ?

Páll A. Þorgeirsson, 23.2.2009 kl. 01:23

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Jú, vissulega má tala þarna um þrjú bákn! Hvern langar í báknið?! Ekki að komast yfir það, heldur að hverfa inn í það!

Þakkarverður pistill, Hjörleifur, og bregður ljósi á atburðarás sem menn hafa ekki verið sér allt of meðvitaðir um hér uppi á Íslandi. Ógagnið að evrunni bæði á Írlandi og Lettlandi (til viðbótar við Spán, Ítalíu o.fl. lönd) kemur heldur betur flatt upp á evrutrúarsöfnuðinn hér heima. Eindregnastir þar eru reyndar harðvítugir hagsmunaaðilar, útrásarfyrirtækin.

Jón Valur Jensson, 23.2.2009 kl. 01:34

4 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Hin svarthvíta veröld sem steypa á öllum í er ekki fýsileg fyrir Íslendinga eða aðrar þjóðir sem hafa nokkra sjálfsvirðingu. Ég skil að fyrrum austantjaldslönd sjái kostinn góðan að verða meðlimir og þannig kljúfa sig frá Rússlandi, þar sem oft eru miklar tilfinningar og heift í gangi.  En ESB er ekkert fyrir okkur.

ESB-heimilið er sjálfu sér sundurþykkt. Efnahagspakkar sem stýrt er innan einstakra voldugra aðildarlanda er dæmi um hversu sundurþykkt sambandið er. Hver bjargar sér hvað hann best getur en hinir sem ekki hafa bolmagn eða njóta þeirrar stærðar og ítaka sem t.d. Frakkland, Bretland og Þýskaland hafa - fá einfaldlega að nærast af því að sleikja sárin og bara vonast eftir þurfamannastyrkjum frá ESB. 

Baldur Gautur Baldursson, 23.2.2009 kl. 09:27

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

... segir séra Baldur Gautur, sem þekkir málin af reynslu, en hann er búsettur í Svíþjóð.

Jón Valur Jensson, 23.2.2009 kl. 10:39

6 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Það er nú bara einu sinni þannið að ég hef verið fylgjandi samvinnu Evrópuríkjanna um margra ára skeið. Ég vil að Ísland sæki um aðild að ESB og tel næsta víst að okkur sé betur borgið þar inni. Aukuin samvinna, samstarf og samruni á heims vísu er framtíðin. Það verða alltaf einhver ljón á vegi okkar í lífinu og ekki um annað að gera en að takast á við þau hverju sinni. Einangrun er hugsun fortíðar og er eitthvað sem ég hef lagt til hliðar.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 23.2.2009 kl. 14:37

7 identicon

Síðuhöfundur hefur ætið verið andstæðingur evrópusamvinnunar og mun finna þessu samstarfi allt til foráttu. Nú er það kreppuástand. 

Það sem er athyglisvert er titill pistilsinns því ef það er ekki fýsilegt vegna uppnáms, þá hlýtur það að vera fýsilegt ef það er ekki uppnám.

Er verið að opna á eitthvað hérna?

Magnús Bjarnason (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 14:49

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hólmfríður, af hverju ættum við að renna saman við Evrópusambandið frekar en t.d. Kanada eða Bandaríkin? Og hvernig verðum við meiri þátttakendur alþjóðasamfélagsins með því að loka okkur inni í múrumvörðu sérhagsmunasambandi?

Þú virðist ganga þarna á einhverjum þægilegum slagorðum um jákvæða hluti, en hvað er svo að baki þeim í reynd hjá þeim, sem öll ráð hafa á þessu, þegar til kastanna kemur? Það verða ekki Íslendingar, sem stýra því, heldur útlendingar. Viltu það? Mættirðu ekki fara að fletta aftur upp í ritum Jóns Sigurðssonar (hins eina sanna)?

Með góðum óskum,

Jón Valur Jensson, 23.2.2009 kl. 15:58

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sjálfstæði þjóðar og allt, sem það gefur af sér, er miklu meira en eitthvað ekki neitt, hr. Albert!

Jón Valur Jensson, 23.2.2009 kl. 19:19

10 Smámynd: Tjörvi Dýrfjörð

Jón Valur!

Viltu meina að séra Baldur Gautur sé í raun í verri málum í "ósjálfstæða og ófullvalda" ríkinu Svíþjóð en við mörbúarnir sem stöndum frammi fyrir okkar mestu erfiðleikum síðan móðurharðindin dundu yfir okkur? eitthvað segir mér að ástandið í Svíþjóð Danmörk og Finlandi sé mun skárra en það verður hér á næstu árum. og svo sýnist mér á öllu að stór hluti Íslensku þjóðarinnar sé á leiðinni til ESB þrátt fyrir aðvaranir íhaldsmanna og afturhaldskommatitta um hversu hættulegt er að lifa innan sambandssins.

Tjörvi Dýrfjörð, 24.2.2009 kl. 00:17

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú þarft, Tjörvi, að grípa til mjög sérstæðs samanburðar milli Íslands og Svíþjóðar með því að gera hann háðan því, að okkar land sé í þessari tímabundnu efnahagskreppu. Slíkur samanburður kemur kannski illa út fyrir okkur, sé hugsað um lífskjörin ein og atvinnustig (sem er nú komið niður á það sama og meðalatvinnustig í EBé), en við eigum eftir að rétta úr kryppunni.

Svo er þetta móðuharðindatal þitt afskaplega illa til fundið og nánast lítilsvirðing við forfeður okkar á kreppuárunum á 4. áratugnum, sem og árið 1918, þegar við fengum yfir okkur þrenns konar óáran: gríðarlegt Kötlugos, grimmdar-frostavetur og landfastan hafís á Faxaflóa og víða um land og hina mannskæðu drepsótt Spænsku veikina, auk margfalt meiri fátæktar en við höfum persónulega reynslu af.

Samt höfðu forfeður okkar þá reisn til að bera að fælast ekki þann metnað og það markmið að stofna hér sjálfstætt konungsríki, þegar Danir höfðu fallizt á það í dönsk-íslenzku sambandslaganefndinni.

Meiri er sú reisn þeirra en hugleysið í þeim, sem vilja aftur koma okkur undir erlent vald, þegar öll okkar þjóðarauðlegð, fasteignir, tekjulindir, mannskapur og menntun er þó margfalt meiri en á því upphafsári okkar sjálfstæðis.

Jón Valur Jensson, 24.2.2009 kl. 00:55

12 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Hjörleifur, ég er ánægður með grein þína sem og oft áður. Við stöndum saman um að verja frelsi okkar og fullveldi.

Með góðri kveðju, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 24.2.2009 kl. 10:18

13 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Góðu bréfritarar.

Gaman væri að geta farið sameiginlega yfir þau efnisatriði sem hér ber á góma því að málið varðar miklu fyrir framtíð Íslands. Hjá ýmsum stuðningsmönnum aðildar Íslands að ESB gætir þess misskilnings að við sem vörum við henni berum illan hug til samvinnu Evrópuríkja innan ESB og utan. Ísland hefur þörf fyrir góð samskipti við allar þjóðir og viðskiptaaðila, þar á meðal ESB. Sjálfur hef ég á árum árum heimsótt allar stofnanir þess, líka Dómstólinn sem oft vill gleymast. Allt var það lærdómsríkt. En við þurfum að gæta þess vel hvar hagsmunir okkar liggja sem þjóðar eins langt og séð verður og auðvitað reyna jafnframt að læra af sögunni. - Kreppan leggst nú þungt á ESB og ég er ekki einn um að telja að margt í innviðum og stefnu sambandsins eigi eftir að breytast mikið næstu árin. Skynsamlegt er að láta þessi él líða hjá og skyggnast um eftir að þeim slotar.

Hjörleifur Guttormsson, 24.2.2009 kl. 14:51

14 Smámynd: Ásta Steingerður Geirsdóttir

Ég er sammála þér Hjörleifur. Það væri glapræði að ganga í ESB, ég tala nú ekki um ef þjóðin ætti að taka afstöðu nú,eins og málin standa hér. Nei. Við getum ekki verið svo galin. Ég held við ættum ekkert að vera að sækjast eftir því að selja sjálfstæðið, því það gerum við ef af þessu verður. það er ekkert svartsýnistal eða afturhaldsnagg að hafa þá skoðun. Mig langar líka að taka undir það með Jóni Vali að þessi samlíking við Móðuharðindin eru afspyrnu ósmekkleg.

Þú Hjörleifur, ert að mínu mati afskaplega skarpskyggn á framtíðina. það vitum við sem höfum "hlustað" á þig  í gegn um árin. þú hefur verið ótrúlega sannspár um mörg stór og afdrífarík mál. Það hefði betur fleiri hlustað, og litið víðsýnna á þínar spár.

Þakka þér góða pistla.

Ásta Steingerður Geirsdóttir, 27.2.2009 kl. 22:46

15 Smámynd: Björn Emilsson

Jón Baldvin sagði í Silfri Egils á sunnudag að meginmálið sé að koma landinu okkar í ESB og það sé hans eina baráttumál í formannskjörinu hjá landráðaflokknum. Er maðurinn elliær eða hvað, sennilega eru öll vandamalin tilkomin vegna EES, sem hann stóð fyrir, eða svo segir hann sjálfur og hælir sér af.

Þakka skrif þín Hjörleifur. Þú ættir nú að hafa samband við Jónsa og fá hann ofan af þessari ofsatrú á þessu vonlausa Evrópubandalagi.

Björn Emilsson, 2.3.2009 kl. 06:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband