Mikilvægar samþykktir vegna aðildarumsóknar að ESB

Nýliðin helgi skilaði góðum niðurstöðum fyrir okkur sem andsnúin erum aðild að Evrópusambandinu og gert höfum kröfu um að umsókn um aðild verði dregin til baka. Samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins í málinu er afdráttarlaus og markar tímamót í afstöðu þess flokks. Á flokksráðsfundi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs bar einnig hátt umræðu um sama efni. Fyrir fundinum lá tillaga þar sem skorað var á þingflokk VG að standa að því að draga aðildarumsókn Íslands til baka. Á fundinum lýstu margir ræðumenn yfir stuðningi við þá kröfu en einnig komu fram efasemdarraddir um að rétt væri að stíga slíkt skref með tilliti til ríkisstjórnarsamstarfsins.

Eftirfarandi afgreiðsla fundarins á tillögunni hlýtur að vekja athygli og teljast til tíðinda:

"Flokksráðsfundur VG samþykkir að vísa tillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu til málefnaþings, sem haldið verður á haustmánuðum. Forsendur ESB umsóknar eru breyttar og í því ljósi er mikilvægt að málið verði tekið til gagngerrar endurskoðunar. Jafnframt felur flokksráð stjórn flokksins að skipa hið fyrsta undirbúningshóp til að halda utan um meðferð málsins fram að málefnaþinginu vegna fyrirhugaðs málefnaþings. Flokksráð ítrekar andstöðu VG við aðild að Evrópusambandinu og vísar til fyrri samþykkta í þeim efnum." 

Þessar samþykktir í stofnunum tveggja íslenskra stjórnmálaflokka koma 10 dögum eftir að ESB fellst formlega á að taka upp aðildarviðræður. Þær bætast við þær skýru vísbendingar sem fram hafa komið í skoðanakönnunum þar sem aðeins um fjórðungur aðspurðra lýsir yfir fylgi við aðildarumsókn. Jafnvel Samfylkingin ætti að gera sér ljóst hversu ábyrgðarlaust það er að ætla að halda fast við fyrri ákvörðun og verja dýrmætum tíma og miklum fjármunum í ferli sem skýr meirihluti landsmanna er andsnúinn.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Birgisson

Hjörleifur Guttormsson, það getur enginn mannlegur máttur stoppað snjóflóð þegar það er komið af stað, þótt öllum sé illa við snjóflóð. Þessi umsókn er komin í visst ferli að vilja meirihluta Alþingis Íslendinga, sem þú sast lengi á, meðal annars með fulltingi VG fólks.

Þjóðin mun að lokum segja sinn vilja. Nákvæmlega ekkert er að marka kannanir um þetta mál nú. Þjóðin hefur ekki hugmynd um kosti eða galla aðildar.

Klárum bara þetta aðildarferli og látum svo þjóðina ráða.

Þannig er lýðræðið og það áttu að vita.

Björn Birgisson, 27.6.2010 kl. 23:33

2 Smámynd: Dingli

Sæll Hjörleifur 

Samþykkt Sjálfstæðisflokksins er afdráttarlaus og VG gefa Samfylkingunni frest fram til hausts að sjá að sér.  Betra getur það varla orðið í bráð þar sem VG fengu ýmislegt fyrir sinn snúð við hrossakaupin og geta illa svikið samninginn þar sem stjórnin yrði ekki starfhæf með alla upp á móti öllum.

Það er því best að gefa Sammó tíma til að finna sómasamlega útgönguleið sjálfri. Össur er mikill sambandssinni en undanfarið hefur mér fundist hann vera að gera sér grein fyrir að aðildarferlið nú er einungis til að draga alla á asnaeyrunum og sóa fjármunum.

Hvort það nægi til hann snúi við blaðinu og segi upphátt að hætta beri vonlausri baráttu fyrir vonlausum málstað sem versnar með hverjum degi er ekki gott að segja en Sammó hefur 3 í mestalagi 4 mán. til að ákveða hvort hún ætlar að vera áfram í stjórnmálum eða þurrkast út í næstu kosningum.

Dingli, 28.6.2010 kl. 01:58

3 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þakka þér skírt mál Hjörleifur. 

Ég biðst velvirðinga þinnar á að ég leyfi mér að benda gesti þínum Birni á að hann fer mjög ósæmilega að okkur sem vitum hvað snjóflóð er og gef ég honum þar með mína fall einkunn.  

Björn segðu okkur Hjörleyfi frá um kostina og dýrðina. Þú hefur hér sagt að aðildar umsókn Jóhönnu að ESB sé eins óafturkræf og snjóflóð, hvað þíðir það?   

 

Hrólfur Þ Hraundal, 28.6.2010 kl. 02:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband